Sarpur | nóvember, 2011

Ögmundur á fjöllum á harða hlaupum frá eigin verkum! Les chiens ne font pas des chats!

28 Nóv

Það er óhætt að segja að tilraun kínverjans Huang Nubo til að kaupa 75% eignarhlut í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum hafi ýft fjaðrirnar á ýmsum frá því fyrst bárust  njósnir af þeim fyrirætlunum. Við ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra síðastliðinn föstudag, um að hafna alfarið umsókn kínverjans, hafa svo ýfðu fjaðrirnar orðið að heilu reyttu stjórnmálalegu hænsnabúi og er þar auðvitað fyrst að telja breiðSamfylkingu stjórnarliðanna Kristjáns Möller, Jóhönnu Sigurðardóttur, Sigmundar Ernis Rúnarssonar og Árna Páls Árnasonar sem lýst hafa megnri óáænægju með þessa ákvörðun.

Í Kastljósi RÚV á föstudaginn sat Ögmundur Jónasson svo fyrir svörum vegna þessarar ákvörðunar sinnar ásamt þingmönnunum Höskuldi Þórhallssyni og Sigmundi Erni Rúnarssyni. Þar brá hins vegar svo við að Ögmundur reyndi allt hvað hann gat til að fría sig allri ábyrgð með „ekki benda á mig“ aðferðum og sagði „Nei það er engu líkara en að þessi ákvörðun fjalli um pólitík. Hún fjallar ekkert um pólitík, hún fjallar um lög, lögfræði og fagmennsku.“ Síðan vísaði hann í það að 1) ákvörðunin væri byggð á faglegri vinnu af hálfu sérfræðinga ráðuneytisins og 2) að ekki væri um að ræða einstakling heldur hlutafélag utan EES og lögin leyfðu ekki slíkum aðilum að fjárfesta á Íslandi.

Samkvæmt lögum  19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna er  erlendum aðilum utan EES óheimilt að fjárfesta í fasteignum á Íslandi (1.mgr.1.gr.). Í þeim lögum er hins vegar einnig framselt til innanríkisráðherra vald til að veita undanþágur frá því banni (2.mgr.1.gr.). Það þarf ekki langa legu yfir lögunum til að sjá að ekki stendur steinn yfir steini í þessum útskýringum Ögmundar. 4.tl. 1.mgr. 1.gr. laganna kveður vissulega á um að „Ef félag er, þar sem enginn félaga ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins, eða stofnun þá skal félagið eða stofnunin eiga hér heimilisfang og varnarþing og stjórnendur allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár. Í hlutafélögum skulu 4/5 hlutar hlutafjár vera eign íslenskra ríkisborgara og íslenskir ríkisborgarar fara með meiri hluta atkvæða á hluthafafundum.“.  Þetta ræður hins vegar ekki úrslitum því að í fyrsta lagi þá er enginn efnislegur munur á því hvort um einstaklinga eða lögaðila er að ræða því að í 1.mgr. 1.gr. eru sambærileg skilyrði hvað varðar einstaklinga sem skulu vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi. Í öðru lagi þá veitir 2.mgr.1.gr. laganna ráðherra einmitt nokkuð rúma heimild til að víkja frá fyrrnefndum skilyrðum í 1.gr. sbr. 2.tl.2.mgr. sem, til viðbótar við undanþáguákvæði 1.tl.2mgr, segir að slíka undanþágu megi ráðherra gefa „Ef annars þyki ástæða til“.  Það er því næsta ódýrt og hjákátlegt hjá Ögmundi að reyna að spila sig sem viljalaust verkfæri laga og faglegra lögskýringa embættismanna. Ögmundur ber sjálfur alla stjórnsýslulega ábyrgð á ákvörðuninni og hann hafði augljóslega fullt vald og möguleika til að veita heimild fyrir fjárfestingunni. Eftir stendur því að ákvörðun Ögmundar fjallar einmitt nákvæmlega um pólitík og er á engan hátt óhjákvæmileg niðurstaða laga, lögfræði og fagmennsku sérfræðinga.

Annar þingmaður VG stökk fram á sunnudag og virtist mega á henni skilja að hún væri tilbúin með þingsályktunartillögu þess efnis að öllum erlendum ríkisborgurum sem ekki hefðu lögheimili eða fasta búsetu á Íslandi yrði bannað að kaupa land á Íslandi hvort sem um væri að ræða ríkisborgara og íbúa EES landa eða ekki.  Þessi viðbrögð Guðfríðar Lilju koma þó svo sem ekki fullkomlega á óvart í ljósi þess hvað hún og VG standa fyrir. Í frönsku er til orðatiltækið  les chiens ne font pas des chats sem útleggst eitthvað á þá leið að undan hundum koma ekki kettir. Í ljósi þess að Guðfríður Lilja er í VG mætti þó líklega snúa þessu við og segja þetta komi ekki á óvart þar sem undan köttum komi ekki hundar. Var því svo sem ekki við öðru að búast en tillögum að frekari höftum, boðum og bönnum. Ögmundur Jónasson hafði svo einmitt líka viðrað slíkar hugmyndir bæði í útvarpsviðtali á föstudaginn í þættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni og svo aftur í fyrrnefndu Kastljósi RÚV síðar þann sama dag. Augljóst er að slíkt bann verður auðvitað ekki sett á með þingsályktunartillögu enda þyrfti lög til. Einnig verður að telja ljóst að þingmenn Samfylkingarinnar og ýmsir aðrir þingmenn munu hafa sitthvað við þessa hugmynd að athuga enda hafa þeirra hugmyndir til endurskoðunar á viðkomandi lögum frekar gengið í þveröfuga átt. Þess fyrir utan er líka hæpið svo ekki sé meira sagt að slíkt bann myndi standast skuldbindingar Íslands samkvæmt 40.gr. EES samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Nú er bara að sjá hvaða brautargengi nýjasta bannárátta VG liða hlýtur.

Auglýsingar